1 búðir framundan

Á morgun áætla Ingólfur og Guðmundur að fyrsta ferðin í gegnum poppkornið verði farin. Þeir félagar eru að ná sér eftir smávægileg veikindi og ættu að vera orðnir nægilega frískir til að fara hratt og örugglega í gegnum ísfallið.  En sherparnir sem leggja leiðina í gegn, hinir svokölluðu „Icefall Doctors“, eru búnir að laga það sem hrundi fyrir nokkrum dögum þannig að allt ætti að vera orðið klárt.

Í miðju poppkorninu

Áætlunin fyrir fyrstu ferð gengur út á að leggja stað á mánudegi sofa 2 nætur í búðum 1. Halda síðan í búðir 2 og sofa þar líka í 2 nætur. Áætlað er að koma til baka laugardaginn 27. apríl.

Áður en lagt er af stað stoppa leiðangursmenn stutt við í sínu Chorten (búddískt altari) þar sem fylgdarsherparnir  munu færa fórnir til að biðja fyrir slysalausri ferð á fjallið.  Lagt verður af stað um hánótt eða um klukkan 04 og kuldinn 10-12 gráður í mínus en leiðangursmönnum hitnar fljótt þegar  sólin kemur upp.

Fyrsta ferðin upp í 1. búðir tekur um 6-9 klukkutíma en þegar hópurinn verður fullaðlagaður mun ferðin taka 5-6 klukkutíma. 1. búðir eru staðsettar í mynni Vesturdals ekki langt fyrir ofan efsta hluta falljökulsins á stað sem stundum er kallaður „þögli dalurinn“. Búðirnar eru í um 5900 metra hæð.  Eftir tvær nætur í búðum 1 verður haldið í búðir 2.

2. búðir eru staðsettar í 6400 metra hæð undir suðvesturhlíð Everest og liggur leiðin úr 1. búðum upp í 2. búðir í gegnum hinn magnaða Vesturdal sem er einhver stórkostlegasti fjallasalur á jörðinni.  Vesturdalur afmarkast af  af snarbröttum suð-vesturhlíðum Everest sjálfs, með Lohtse, fjórða hæsta fjall heims í austri og Nuptse (7855 m) í suðri. Gríðarlegur hitamunur, einn sá mesti sem þekkist á jörðinni, getur orðið í Vesturdal.  Á nóttunni er ískuldi en á daginn þegar sólin endurkastast af sjónum getur myndast gríðarlegur hiti allt að 35 gráður.

Hér má sjá staðsetningu búða í Vesturdal

Leiðin frá 1. búðum upp í 2. búðir sem oft eru kallaðar efri grunnbúðir (ABC eða Advanced Base Camp) mun taka leiðangurmenn um 4-7 klukkutíma að ganga í fyrsta sinn (3-5 þegar þeir verða vel aðlagaðir). Í efri grunnbúðum verður stórt matartjald með stólum og borðum. Þá verður og reynt að ganga enn ofar í þessari fyrstu verð a.m.k. upp að Lohtse-hlíðinni frægu áður en haldið verður alla leið niður í grunnbúðir að nýju til að hvílast.

4 umælli

 1. Eirny says:

  hrikalegt – gangi ykkur vel

 2. Ingibjörg Stefáns says:

  Magnað að fylgjast með afrekum ykkar … svona í beinni.
  Gangi ykkur sem allra best og farið varlega !

 3. Karl Jón Hirst says:

  Þetta er magnað hjá ykkur félögum. Gangi ykkur áfram vel á tindinn !

Skildu eftir ummæli