leidangur2

Leiðangur

Leiðangurinn er skipulagður af fyrirtækinu Adventure Consultants. Fyrirtækið er líklega frægast hér á landi fyrir að vera í einu af aðalhlutverkunum í bók Jon Krakauer, Á fjalli lífs og dauða, sem Forlagið gaf út árið 1999. Á þeim tíma var Rob Hall eigandi fyrirtækisins en hann lést á fjallinu árið 1996 þegar frásögn bókarinnar átti sér stað.

Leiðangursstjóri er Dean Staples frá Nýja Sjálandi. Aðstoðarmenn Dean eru þau Ang Dorjee Sherpa frá Nepal (býr í Bandaríkjunum) og Lydia Bradley frá Nýja Sjálandi. Æðsti maðuirnn í hópi Sherpa nefnist Shirdar. Ang Tshering Sherpa gegnir því hlutverki í leiðangrinum en hann hefur stýrt sínu fólki síðan 1993 fyrir hönd Adventure Consultants. Hægri hönd Ang Tshering verður Dawa Jangbu sem 11 sinnum hefur staðið á toppi Everest. Fyrir utan Íslendingana tvo koma 2 frá Ástralíu, 2 frá Austurríki, Bandaríkjamaður, Ný Sjálendingur og Svíi auk eins frá Venezuela sem flokkast í einkaferð en kaupir þjónustu af Adventure Consultants.

Ferðaáætlunin er sem hér segir:

30. mars Brottför frá   Íslandi. Flogið til Frankfurt, Dubai og það til Khatmandu
31. mars Komið til   höfuðborgar Nepal, Kathmandu
1. apríl Búnaðarskoðun og   hópurinn kemur saman
2. apríl Gengið frá   búnaði fyrir göngu, skoðunarferð um borgina.
3. apríl Flogið til Lukla   þorpí í tæplega 2900 metra hæð yfir sjávarmáli
3.-12. apríl Gengið um   fjalladali Nepals að rótum Everest í grunnbúðir í 5300 metra hæð
13. apríl – 4.   maí Hæðaraðlögun – á   þeim tíma verður farið upp í efri búðir á fjallinu með búnað og gist þar.   Fyrstu búðir eru í 5900 metrum, aðrar búðir í 6400 metrum og þriðju búðir í   7300 metrum yfir sjávarmáli.
5.-12. maí Hvíld í   grunnbúðum eða ennþá neðar.
13.-25. maí Áætlaður tími   til að ná settu markmiði
26.-27. maí Frágangur og undirbúningur   brottfarar úr grunnbúðum
27.-31. maí Gengið niður   fjalladali Nepla til Lukla
1. júní Flogið frá Lukla   til Kathmandu
2. júní Flogið frá   Kathmandu áleiðis til Íslands í gegnum Dubai og Frankfurt
3. júní Heimkoma til   Íslands

Eftir að komið er upp í grunnbúðir hefst langt og strangt aðlögunarferli sem tekur hátt í 3 vikur. Það felst í endurteknum ferðum upp í hlíðar Everest og aftur niður í grunnbúðir. Með hverri aðlögunarferð verður farið hærra upp fjallið og gist í fleiri nætur á fjallinu. Á milli ferða er síðan lögð ofuráhersla á að hvílast vel og safna kröftum. Tilgangurinn með þessu er að venja líkamann við hæðina og undirbúa sig sem best fyrir átökin við tindinn.