Undirbúningur

Guðmundur í góðum vír í Ölpunum 2012

Guðmundur Stefán Maríusson og Ingólfur Geir Gissurarson eru fimmtugir, giftir og eiga 3 börn og eitt barnabarn hvor.
Á sínum yngri árum stunduðu þeir íþróttir af kappi. Ingólfur æfði og keppti í sundi frá unga aldri og setti 19 íslandsmet á sínum keppnisferli og var m.a. valin sundmaður ársins 1983. Eftir að sundferlinum lauk hóf Ingólfur að stunda maraþonhlaup og varð m.a. 5 sinnum Íslandsmeistari á árunum 1995 – 2001.

Guðmundur lék knattspyrnu með yngri flokkum KR og lék svo með Víkverja í 10 ár í 2 og 3 deild. Guðmundur æfði og lék borðtennis hjá KR og var m.a. í liði KR í áratug sem varð Íslandsmeistari 19 ár í röð. Einnig var hann landsliðmaður í borðtennis á þessum árum.

Báðir hafa þeir félagar verið viðloðandi fjallgöngur hér heima og erlendis um árabil. Þeir hafa báðir klifið Elbrus í Rússlandi (hæsta fjall Evrópu, 5644 m.ys.) og Aconcagua í Argentínu (hæsta fjall Suður Ameríku 6962 m.y.s.). Auk þess hefur Guðmundur gengið á Kilimanjaro (hæsta fjall Afríku 5895 m.y.s.). Everest verður hins vegar fyrsta stóra fjallið sem þeir Guðmundur og Ingólfur klífa saman.

Undirbúningurinn hefur staðið yfir með hléum í eitt og hálft ár. Undirbúningurinn hefur byggst að miklu leiti á samblandi að fjallgöngum og alhliða líkamsrækt.

Segja má með sanni að besta æfingin fyrir fjallgöngur sé að ganga á fjöll. Félagarnir hafa gengið mikið, lengi og langt með þungar byrðar. Þess utan hafa þeir stundað æfingar af kappi í World Class en þar eru fjölbreytt tæki og æfingaplön auk þess sem aðstaðan í baðstofunni er frábær. Kaldi potturinn í Laugum hefur verið mikið nýttur enda er mjög gott að stunda köld böð reglulega til að vinna á eymslum og bólgum sem myndast við mikið álag. Þá hafa þeir synt mjög mikið en með sundæfingunum þjálfast lungun og súrefnisupptakan eykst.

Á undirbúningstímanum hefur Esjan verið nýtt til hins ítrasta en þeir félagar hafa gengið hana þvers og kruss, úr báðum áttum og upp flestar færar leiðir í öllum veðrum. Hvannadalshnjúkur, Hrútfjallstindar og Hraundrangi í Öxnadal eru á meðal þeirra tinda sem fallið hafa í undirbúningnum. Í haust fóru kapparnir síðan til Chamonix í Frakklandi á sérstakt undirbúningsferli fyrir Everest göngu. Á myndinni fetar Guðmundur sig eftir vír yfir hengiflug í Alpafjöllum.